Spring In The Valley
Jæja þá er loksins komið að því ég er búin að fá nóg og hætt að drekka. Spring in The Valley var síðasta sunnudag og höfðum við leigt rútu til að skella okkur áhyggjulaus í gleðina.
Spring In The Valley er hátið sem er haldin einu sinni á ári og bjóða þá allar vínekrurnar í Swan Valley í partý. Á flestum vínekrunum eru hljómsveitir eða plötusnúðar og svo auðvitað allt fljótandi í víni til að "smakka". Við fórum á nokkrar vínekrur og eina bjórverksmiðju. Fjörið byrjaði 10 um morgunin og var 25 stiga hiti og sól. Það var Al Capone þema í rútunni svo í byrjun dags voru allir glæsilega uppstrílaðir í glæpona fötum. Eftir því sem leið á daginn jókst fjörið, nokkrir ældu í rútuna og við skyldum tvo óvart eftir á síðustu vínekrunni og brunuðum í bæinn. Undarlegt er að einhvern veginn vill til að allir misstu minnið eftir því sem leið á daginn. Ég endaði úti í vatni í öllum fötunum, reif skyrtuna mína, braut á mér tána og endaði kvöldið með höfuðið ofan í klósettinu hér á Little Brown. Svo nú er ég hér með hætt að drekka. En verð nú samt að játa að þetta var hin mesta skemmtun og myndi ég nú ekki hafna boði á næsta ári ;)