Trinadown under

þriðjudagur, október 10, 2006

Spring In The Valley












Jæja þá er loksins komið að því ég er búin að fá nóg og hætt að drekka. Spring in The Valley var síðasta sunnudag og höfðum við leigt rútu til að skella okkur áhyggjulaus í gleðina.
Spring In The Valley er hátið sem er haldin einu sinni á ári og bjóða þá allar vínekrurnar í Swan Valley í partý. Á flestum vínekrunum eru hljómsveitir eða plötusnúðar og svo auðvitað allt fljótandi í víni til að "smakka". Við fórum á nokkrar vínekrur og eina bjórverksmiðju. Fjörið byrjaði 10 um morgunin og var 25 stiga hiti og sól. Það var Al Capone þema í rútunni svo í byrjun dags voru allir glæsilega uppstrílaðir í glæpona fötum. Eftir því sem leið á daginn jókst fjörið, nokkrir ældu í rútuna og við skyldum tvo óvart eftir á síðustu vínekrunni og brunuðum í bæinn. Undarlegt er að einhvern veginn vill til að allir misstu minnið eftir því sem leið á daginn. Ég endaði úti í vatni í öllum fötunum, reif skyrtuna mína, braut á mér tána og endaði kvöldið með höfuðið ofan í klósettinu hér á Little Brown. Svo nú er ég hér með hætt að drekka. En verð nú samt að játa að þetta var hin mesta skemmtun og myndi ég nú ekki hafna boði á næsta ári ;)

sunnudagur, október 01, 2006

West Coast Eagles Meistarar


















West Coast Eagles unnu Sydney Swans með einu stigi á Laugardaginn og varð allt vitlaust hér í Perth. Ég hef aldrei verið eins spennt yfir íþróttaleik áður og voru síðustu fimm mínútur leiksins óbærilegar. Allir barir í Perth voru stappaðir og stóð fólk eins og sardínur í dós að horfa á leikinn. Við fórum í fótboltaklúbb Grétars þar sem búið var að setja upp breiðtjald og nóg var af bjór og pizzum. Þegar leikurinn var búinn þeyttist fólk út á götur veifandi fánum og Eagles treflunum sínum, fólk keyrði um flautandi og veifandi fánum út úr bílunum, það hreinlega varð allt vitlaust hérna. Í fyrra höfðu West Coast Eagles og Sydney Swans mæst í úrslitunum og þá höfðu Sydney unnið en nú var sko komið að vestrinu og okkar menn gáfu ekkert eftir og verð ég að nefna sérstaklega hann Ben Cousins minn sem var í því að rífa kjaft og lenda í stimpingum við liðsmenn Sydney í hvert skipti sem færi stóð til. Ég hefði aldrei trúað því að ég ætti nokkurn tíman eftir að vera svona æst yfir íþróttaleik en ég var nálægt því að bresta í grát þegar mínir menn unnu.
En nú er tímabilinu lokið og veit ég ekki hvort ég verð stödd hér í Ástralíu þegar næsta tímabil byrjar, verð ég því líklega að fara að hefja samningaræður við Sýn um að sýna AFL heima á Íslandi, þar sem ég er orðin dyggur stuðningsmaður West Coast Eagles.
Hér í Perth er annars löng helgi þar sem drottningin á afmæli og greinilegt að sumarið er að koma þar sem það er 27 stiga hiti og sól í dag, ég er því farin á ströndina yfir og út.