Gleði og rómantík
Þá er hinum fræga Ástralídegi lokið. En þjóðhátíðardagur ástralanna er þann 26. janúar sama dag og afmæli minnar einkasystur. Hefðin er sú að koma sér fyrir einhverstaðar, helst í almenningsgarði um hádegi og svo bara drekka, grilla og spila krikket. Við komum okkur fyrir í garðinum á Coodestræti og sátum þar að sumbli í um 11 tíma. Upp úr átta hófst 30 mínútna flugeldasýning og svo hélt drykkjan og gleðin áfram. Ástralir segja að aussieday sé besti dagur ársins og skildi ég ekki alveg hvað væri svona spes við þennan dag þar sem það að sitja í almenningsgarði, grilla, drekka og spila krikket er gert hér á hverjum sunnudegi. Og veit ég ekki enn hvert svarið er þar sem flestir vinnufélagar mínir eru alltaf svo fullir á aussie day að þeir muna ekki eftir hálfum deginum. En kannski er það bara besti dagur ársins að vera í móki. Eins og fræg kona sagði eitt sinn "drekka til að gleyma".
Því lengur sem ég er í Ástralíu því skemmtilegra finnst mér að búa hér. Maður upplifir alltaf eitthvað nýtt. Til dæmis var ég á gangi um daginn, þegar fram hjá mér brunar blæjubíll fullur af beljum, annan dag var ég að sækja Le meyor í bílageymslu og sé þá 9 löggur í skotapilsum að spila á sekkjapípur innan um bílana. Ég fæ sendar viðvaranir frá skólanum mínum um að passa mig á snákum þegar ég mæti í skólann. Í kvöld fór ég í bíó og varð að slást við önd um snakkið mitt.
Svo er auðvitað endalaus hamingja hér á Little Brown eftir að Grétar mætti aftur á svæðið og er svifið um á bleiku skýi alla daga.
Svo á morgun er það bara rómantík á teppi með rauðvín og osta á tónleikum með Missy Higgins á Sandalford vínekrunni. Lífið er ljúft í Ástralíunni.
Cheers mates
Cheers mates