Trinadown under

laugardagur, janúar 28, 2006

Gleði og rómantík


Þá er hinum fræga Ástralídegi lokið. En þjóðhátíðardagur ástralanna er þann 26. janúar sama dag og afmæli minnar einkasystur. Hefðin er sú að koma sér fyrir einhverstaðar, helst í almenningsgarði um hádegi og svo bara drekka, grilla og spila krikket. Við komum okkur fyrir í garðinum á Coodestræti og sátum þar að sumbli í um 11 tíma. Upp úr átta hófst 30 mínútna flugeldasýning og svo hélt drykkjan og gleðin áfram. Ástralir segja að aussieday sé besti dagur ársins og skildi ég ekki alveg hvað væri svona spes við þennan dag þar sem það að sitja í almenningsgarði, grilla, drekka og spila krikket er gert hér á hverjum sunnudegi. Og veit ég ekki enn hvert svarið er þar sem flestir vinnufélagar mínir eru alltaf svo fullir á aussie day að þeir muna ekki eftir hálfum deginum. En kannski er það bara besti dagur ársins að vera í móki. Eins og fræg kona sagði eitt sinn "drekka til að gleyma".

Því lengur sem ég er í Ástralíu því skemmtilegra finnst mér að búa hér. Maður upplifir alltaf eitthvað nýtt. Til dæmis var ég á gangi um daginn, þegar fram hjá mér brunar blæjubíll fullur af beljum, annan dag var ég að sækja Le meyor í bílageymslu og sé þá 9 löggur í skotapilsum að spila á sekkjapípur innan um bílana. Ég fæ sendar viðvaranir frá skólanum mínum um að passa mig á snákum þegar ég mæti í skólann. Í kvöld fór ég í bíó og varð að slást við önd um snakkið mitt.
Svo er auðvitað endalaus hamingja hér á Little Brown eftir að Grétar mætti aftur á svæðið og er svifið um á bleiku skýi alla daga.
Svo á morgun er það bara rómantík á teppi með rauðvín og osta á tónleikum með Missy Higgins á Sandalford vínekrunni. Lífið er ljúft í Ástralíunni.
Cheers mates

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Sólbrennda KONAN


Nú styttist og styttist í að Grétar komi heim svo ég ákvað að vera duglegri að vinna í taninu. Fór það ekki betur en svo að ég ligg núna uppi í rúmi smurð í aloe vera og vafin inn í skæni (ráð frá einkahjúkrunarfræðingnum mínum). Vona að ég verði orðin fagurbrún á sunnudaginn.
En ætli það skipti nokkru þótt ég brenni og endi eins og leðurtuðra. Þar sem ég er orðin 25 ára og þar með orðin eldri kona. Ég var í sakleysi mínu á einum af skemmtistöðum Perth, þegar að ungur 17 ára drengur, sem hafði komist inn á staðinn með fölsuðu skilríki, fer að reyna við mig og segir svo við mig að hann langi svo að vera með ELDRI KONU!!!!!!!
Svo nú er ég orðin eldri kona og að breytast í leðurtuðru undir skæninum.

En á meðan ég býð eftir sunnudeginum býr Fjóla hjá mér og styttir mér stundir með drama ofan á drama. Það er búið að vera ansi rólegt á dramanum þetta sumarið í Perth. En um leið og íslendingunum fór að fjölga aftur byrjaði draminn. Og ekki finnst dramadrottningunni það amalegt.
Cheers mates

sunnudagur, janúar 08, 2006

Hákarlar Hákarlar

Þar sem það er orðið ansi heitt hér í Perth finnst mér mjög gott að fara niður á strönd og dýfa mér smá í sjóinn. En þar sem ég er búin að vera með hákarla, sjósnáka og baneitraðar marglyttur á heilanum, þá hef ég verið ansi smeik á tímum. Ástralarnir segja alltaf að það sé líklegra að ég lendi í bílslysi en að lenda hákarlskjafti. En mér er farið að finnast þetta tal þessa ástrala um að hákarla árásir séu svo sjaldgæfar vera orðið ansi mikið rugl.
Í gær var 21 árs stelpa að synda í sjónum utan við Brisbaine. Á hana réðust þrír bull hákarlar, sem ég hef komist að núna að séu víst ansi árásargjarnir á þessum tíma (engin að segja mér þetta) stelpan kallaði á hjálp en vinir hennar héldu að hún væri að djóka!. Á nokkrum sekúndum höfðu hákarlarnir rifið af henni báða handleggi, og rifið í sig fæturnar og skrokkinn á henni. Sjómenn sem voru þarna nálægt á bát náðu að koma henni upp úr sjónum og koma henni land, en eftir 50 mínútur dó hún vegna sj0kks og blæðingar. Sjómenn og kafarar hafa svo fundið hákarlana og eru að reyna að athuga hvort þeir geti "retrieve what we can".
Í gær var ég á ströndinni og var úti í sjó á bodyboardi þegar Thor segir við mig Katrín hvað er þetta þarna og bendir lengra út í sjó. Brá mér ansi mikið þegar ég sá eins og tvo ugga standa upp úr sjónum og heyri fólkið í kringum mig vera að segja shark, shark. Munaði litlu að ég gerði í buxurnar og tók næstu öldu og lét hana bera mig alla leið upp á sand í panikki. Þessir ástralir stóðu bara þarna áfram út í sjó að benda og spjalla. Komu svo tveir strákar til okkar síðar og sögðu að þetta hefði LÍKLEGA bara verið einhvers konar fuglar sem geta litið eins og uggar þegar þeir sitja á sjónum.
Ég held ég sleppi því að fara á ströndina í dag.
Cheers mates

föstudagur, janúar 06, 2006

Sumar í Perth



Gleðileg jól og farsælt nýtt komandi ár og allt það. Takk fyrir jólakortin og góðu pakkana alla leið frá Íslandi. Ég er búin að vera mjög töff úti á pósthúsi þar sem karlinn í afgreiðslunni segir alltaf "Package from Iceland, grúví" Takk takk takk fyrir mig.
Aftur er ég orðin munaðarlaus, foreldrarnir farnir aftur heim til Íslands. Það er búið að vera svo gott að hafa þau og nú þarf ég að verða fullorðin aftur.
Sökum aukiðs hitafars hér í Perth er ég nú komin með krónískan kennarann og perrasvita yfir efri vörinni. Nú sit ég um kvöld á brókinni, þar sem ég get ekki hugsað mér að svitna í fleiri föt í dag og bíð eftir þrumuveðri. Þrumuveðrin eru mögnuð hér, trylltar eldingar og háværar þrumur. Þetta kalla Ástralir Thunderstorm, en ég get ekki séð neitt stormlegt við þetta.
Annars fer að styttast í að Grétar komi aftur og verður erfiðara og erfiðara að bíða eftir því sem tíminn líður. En Fjóla mun koma í næstu viku og búa hjá mér í viku svo ég býst við miklum drama til að stytta fyrir mér biðina.
Cheers mates