Ævintýri í Ástralíunni
Maður veit aldrei við hverju maður á að búast í Ástralíunni. Það kemur stundum fyrir að ég fer út að "hlaupa" og þá hleyp ég yfirleitt með fram ánni sem liggur hér í gegnum hverfið sem ég bý í. Vanalega sé allskonar marglita páfagauka, svarta svani, pelikana, einhverja fugla sem ég veit ekki hvað heita og einu sinni sá ég rottu. En í gær voru öll met slegin. Um tuttugu metra út í á sá ég fjóra höfrunga (áin er sko frekar breið og er með saltvatni). Ég stoppaði um stund og fylgdist með þeim, svo þegar þeir fóru að synda niður ánna, hljóp ég meðfram ánni sömu leið. Þegar ég kom að bryggjunni sem er við endann á sýkinu sem er rétt hjá húsinu mínu, voru höfrungarnir bara um 5 - 6 metra frá mér. Svo ég settist niður á bryggjuna, lét fæturnar lafa fram af og fylgdist með þeim. Allt í einu fóru að þeira að synda í áttina að mér og einn þeirra synti beint undir fæturnar á mér. Svo synti hann meðfram bryggjunni og ég gekk meðfram líka og hann snéri sér öðruhvoru á hliðina og horfði á mig. Hinir höfrungarnir voru um meter frá mér að borða og leika sér. Eftir dágóða stund syntu þeir svo allir í burtu og ég stóð eftir gapandi. Hinum megin við sýkið heyrði ég svo fólk vera að kalla á mig, hafði þá hópur að strákum séð hvað ég var nálægt höfrungunum og farið að fylgjast með. Ég stóð bara þarna dágóða stund agndofa og tók svo sprettinn heim til að segja öllum frá höfrungunum. Það eiga víst líka að vera bull sharks í ánni svo nú verð ég fara oftar út að hlaupa og skima eftir þeim.